Skip to content
Í þessum kafla

Lög og reglur um lögskráningu sjómanna

Um lögskráningu sjómanna er fjallað í lögum um áhafnir skipa, nr. 82/2022:

Markmið laganna er að tryggja öryggi áhafna, farþega og skipa og efla varnir gegn mengun sjávar. Því markmiði skal meðal annars náð með því að kveða á um lögskráningu áhafnar, sjá 3. mgr. 1. gr.

Lögskráning er lögformleg skráning skipverja um borð í skip í gegnum Lögskráningarkerfi sjómanna, sbr. 17. tölul. 2. gr.

Lögskráningarkerfi sjómanna er gagnagrunnur sem heldur utan um lögskráningu sjómanna. Þar eru skráðar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við útgáfu skírteina sjómanna, þ.m.t. um menntun, þjálfun, siglingatíma og öryggisfræðslu. Auk þess geymir það upplýsingar um útgefin skírteini, haffæri skipa samkvæmt skipaskrá, lögskráningar á einstök skip, áhafnaskrá, kröfur um lágmarksmönnun skipa og frávik frá þeim, undanþágur, áhafnartryggingar, farþegaleyfi farþegaskipa í áætlunarsiglingum og farþegaskipa og farþegabáta í útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum, sbr. 18. tölul. 2. gr.

Lögskráning sjómanna

13. gr. Lögskráningarkerfi sjómanna

Samgöngustofa annast rekstur og viðhald lögskráningarkerfis sjómanna.

Lögskráning fer fram rafrænt. Samgöngustofa hefur umsjón með úthlutun aðgangs að lögskráningarkerfinu til lögskráningar á tiltekið skip að fenginni umsókn útgerðar skipsins samkvæmt skipaskrá. Útgerð er heimilt að fela skipstjóra eða öðrum starfsmönnum sínum að annast lögskráninguna. Útgerð getur jafnframt óskað eftir því við Samgöngustofu að lögskrá áhöfn skipsins.

Upplýsingar úr lögskráningarkerfi sjómanna skulu aðeins veittar þeim sem hafa lögvarða hagsmuni og skal fylgt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga um veitingu upplýsinga.


14. gr. Lögskráningarskylda

Óheimilt er skipstjóra að halda úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir á skipið, séu með gilt atvinnuskírteini eða undanþágu í þá stöðu sem þeir eru lögskráðir í, skipið sé með gilt haffærisskírteini, skipið sé mannað miðað við stærð þess, vélarafl, farsvið og útivist, staðfestingu á að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt og með gilda áhafnartryggingu fyrir alla um borð. Þetta gildir þó ekki í neyðartilvikum.

Þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé afskráður. Samgöngustofa skal afskrá sjómann þegar skip hefur ekki lengur haffæri, áhafnartrygging skipsins er útrunnin eða atvinnuskírteini hans útrunnið. Skal Samgöngustofa tilkynna viðkomandi um að hann hafi verið afskráður.

Ef útgerð vanrækir að hafa líf- og slysatryggingu í gildi er hún ábyrg fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Reynist útgerð eigi fær um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirra. Lögskrá skal farþega eða aðra um borð í skipum öðrum en farþegaskipum og farþegabátum sem ekki teljast skipverjar.


18. gr. Frávik frá lágmarksmönnun

Samgöngustofa hefur heimild til að ákveða frávik frá ákvæðum 16. og 17. gr. um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum eftir því sem tilefni gefst til, svo sem vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips þar sem meðal annars skal taka tillit til vinnuálags sem breytingin kann að hafa í för með sér.

Samgöngustofa skráir ákvarðanir sínar í lögskráningarkerfi sjómanna.


30. gr. Eftirlit

Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands hafa eftirlit með að lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra sé fylgt.

Samgöngustofu, Landhelgisgæslu Íslands og öðrum eftirlitsaðilum er heimilt að nota lögskráningarkerfi sjómanna til eftirlits. Þá er heimilt að miðla upplýsingum með rafrænum hætti til vaktstöðvar siglinga vegna verkefna hennar og til lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands og rannsóknarnefndar samgönguslysa þegar sakamál, mannshvarf eða samgönguslys eru rannsökuð.

Starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að fara um borð í íslensk skip á hafi sem í höfn og kanna lögmæti lögskráningar og skilríki um réttindi yfirmanna sem og hvort öðrum ákvæðum 28. gr. sé framfylgt.


31. gr. Þjónustugjöld

Samgöngustofu er heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna laga þessara í samræmi við 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012. Þjónustugjöld Samgöngustofu eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 15. gr. sömu laga.

Samgöngustofu er heimilt að innheimta gjald fyrir aðgang að lögskráningarkerfinu, lögskráningu, afskráningu sjómanns og skráningu frests vegna öryggisfræðslu sjómanns. Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa starfsmanna og rekstrarkostnað vegna viðhalds og vistunar lögskráningarkerfisins.

Jafnframt er Samgöngustofu heimilt að innheimta gjald fyrir útgáfu skírteina og sjóferðabóka, áritun erlendra skírteina, veitingu undanþága og útgáfu öryggismönnunarskírteina samkvæmt lögum þessum. Skulu þau gjöld standa undir kostnaði Samgöngustofu sem af þjónustu hlýst. Jafnframt skal greiða gjald vegna kostnaðar sem til fellur vegna próftöku og námskeiða samkvæmt lögum þessum. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar.

Gjaldskrá Samgöngustofu

Gjaldskrá


Stjórnvaldssektir

Landhelgisgæsla Íslands getur lagt á stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn eða uppfyllir ekki skilyrði eftirfarandi ákvæða og reglna sem settar eru samkvæmt 1. mgr. 14. gr. um skyldur skipstjóra varðandi lögskráningu skipverja áður en haldið er út höfn og kröfur um mönnun og tryggingar, sbr. d-lið, 1. mgr. 32. gr.


Reglugerðarheimild

37. gr. Reglugerð

Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um: 8. Nánari framkvæmd lögskráningar og skilyrði hennar, hvernig standa skuli að rafrænni lögskráningu í gegnum lögskráningarkerfið og notkun rafrænna skilríkja í þeim efnum, frest til þess að ljúka öryggisfræðslunámskeiði sjómanna til að fást lögskráður, hvernig standa skuli að aðgangi að gögnum og upplýsingum úr lögskráningarkerfinu til þeirra sem hafa lögvarða hagsmuni og um eftirlit með framkvæmd lögskráningar skv. 13. og 14. gr. Í reglugerð má veita undanþágu frá ákvæðum um lögskráningarskyldu áhafna tiltekinna skipa, svo sem til hafnsögubáta, dráttarbáta, björgunarskipa og frístundafiskiskipa.

Reglugerð um lögskráningu sjómanna nr. 817/2010 með síðari breytingum

(reglugerðin er sett á grundvelli eldri laga um lögskráningu sjómanna, unnið er að nýrri reglugerð á grundvelli laga um áhafnir skipa nr. 82/2022):